Til styrktar fötluðum börnum og ungmennum

SýnAð venju munu félagar í Soroptimistaklúbbi Austurlands selja kærleikskúlur og jólaóróa frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra nú á aðventunni. Sala þessara muna er árlegt fjáröflunarverkefni Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og fær Soroptimistaklúbbur Austurlands 1000 krónur af andvirði hvers hlutar sem selst hér til stuðnings fötluðum börnum og ungmennum á Austurlandi.  

Kúlan í ár heitir Sýn og er eftir Sigurð Árna Sigurðsson. Kúlan hefur hvorki upphaf né endi og er táknmynd hringrásar lífsins og móður jarðar. Á endalausu yfirborði hennar eru þó tvær hliðar eins og á flestu, því inn í kúlunni er annað endalaust yfirborð. Tveir heimar – sá ytri og hinn innri. Sigurður Árni gataði yfirborðið og segir að hugmynd verksins og kærleikur kúlunnar búi í gatinu. Í opinu er möguleiki að tengjast öðrum heimi, setja sig í spor annarra og öðlast víðara sjónarhorn – nýja sýn. Kærleikskúlan 2016 kostar kr. 4.900.

PottaskefillPottaskefill er ellefti óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Í seríunni fara saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun og ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni. Signý Kolbeinsdóttir, vöruhönnuður og einn eigenda Tulipop, og Snæbjörn Ragnarsson, betur þekktur sem Bibbi í Skálmöld, túlka sveininn. Signý með glæsilegri hönnun og Bibbi með sinni einstöku ritsnilld. Jólaóróinn 2016 kostar kr. 3.500.

Soroptimistaklúbbur Austurlands kemur nú að þessu verkefni í 11. sinn og hafa Austfirðingar verið tryggir kaupendur. Ágóðinn er sem fyrr segir notaður í þágu fatlaðra barna og ungmenna á heimaslóðum og hefur hann t.d. verið notaður til tækjakaupa fyrir sjúkraþjálfun og til kaupa á ýmiskonar hjálpartækjum fyrir einstaklinga. Einnig hefur sjóðurinn styrkt einstakling til þátttöku á vetrarólympíuleikum fatlaðra.

Síðast liðin ár hefur ágóðinn runnið til kaupa á lyftu í sundlaugina á Egilsstöðum. Lyftan er komin austur og unnið er að uppsetningu hennar.

Selt verður í Bónus 3.,4.,10. og 11. desember frá kl. 13.00 – 17.00, í markaðinum í Barra 17.desember frá kl. 12.00 – 16.00, í versluninni Klassík á Egilsstöðum og í Hár.is í Fellabæ, í Kjörbúðinni á Seyðisfirði 3. og 10. desember kl. 11.00 -14.00.

Soroptimistaklúbbur Austurlands

Copyright © 2014. All Rights Reserved.